Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs er unnin á grundvelli laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og stefnu ráðherra í úrgangsmálum, Í átt að hringrásarhagkerfi, og 5. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 803/2023.
Í svæðisáætlun er gerð grein fyrir framtíðarsýn sveitarfélagsins í úrgangsmálum, markmiðum sveitarfélagsins um að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu. Settar eru fram leiðir sem farnar verða til að ná markmiðum. Núverandi staða er kortlögð og þannig lagður grunnur að aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að ná markmiðum.
Svæðisáætlun er sett upp í eftirfarandi skrefum:
Skref 1. Stefna varðandi úrgangsstjórnun.
Skref 2. Markmið um að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu og lágmarka förgun.
Skref 3. Aðgerðir til að bæta flokkun, söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs, sem og aðgerðir í úrgangsforvörnum til að draga úr myndun úrgangs.
Skref 4. Vöktun, eftirlit, skipulag úrgangsmála, fræðsla og kynningarmál.
Í fylgiskjölum er stöðugreining sem liggur til grundvallar, aðgerðaáætlun og umhverfismat áætlunar.