Hringrásarhagkerfið er andsvar við hinu línulega hagkerfi. Í hringrásarhagkerfi er leitast við að koma í veg fyrir úrgangsmyndun þannig að efni og auðlindum er viðhaldið í notkun eins lengi og mögulegt er, ólíkt hinu línulega hagkerfi þar sem efni og vörum er fargað eftir að notkun þeirra lýkur. Efniviður ætti allra helst að vera í stöðugri hringrás og eiga sér enga lokastöð. Aðferðir við innleiðingu hringrásarhagkerfisins eru fjölbreyttar og geta falist í því að koma í veg fyrir úrgangsmyndun, deila vörum, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna. Allt miðar þetta að því að halda auðlindum í hringrásinni til að draga úr raski og umhverfisáhrifum af vinnslu nýrra hráefna. Í upphafi skal endinn skoða og mestir möguleikar til að halda efnum í hringrás eru fólgnir í því að hanna vörur og þjónustu með þetta í huga.

Framtíðarsýn í stefnu ráðherra í úrgangsmálum er að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Markmiðið er að hringrásarhagkerfi verði virkt, dregið verði verulega úr myndun úrgangs, endurvinnsla aukin og urðun hætt.

Sveitarfélög útfæra hvata til innleiðingar hringrásarhagkerfis í svæðisáætlun sinni, í gegnum opinber innkaup og í gjaldskrám. Dæmi um hvata í átt að hringrásarhagkerfi eru borgað þegar hent er kerfi, umbúðalaus innkaup, koma í veg fyrir innkaup á óþarfa, uppsetning endurnotkunarstöðva og efling viðgerðarmenningar.