Orðin endurvinnsla og endurnýting flækjast fyrir mörgum. Endurnýting er samheiti yfir undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, orkuvinnslu úr úrgangi og fyllingu. Endurvinnsla er því ein gerð endurnýtingar. Með endurvinnslu er átt við hvers kyns aðgerð sem felur í sér að vinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem það er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða ekki. Orkuvinnsla, eldsneytisframleiðsla og fylling teljast hins vegar ekki til endurvinnslun.

Algengur misskilningur er að í endurvinnslu felist alltaf að efni fari í lokaða hringrás, en það er ekki kveðið á um slíkt í skilgreiningunni á hugtakinu endurvinnslu. Með lokaðri hringrás er átt við um að úrgangsefni sé endurunnið í sama efni, til dæmis þegar bylgjupappi sem er orðinn að úrgangi er aftur unninn í nýjan bylgjupappa, en það er algeng endurvinnsluaðferð á bylgjupappa. Hins vegar myndi bylgjupappi einnig teljast endurunninn ef hann færi í jarðgerð sem framleiðir áburðarvörur eða ef hann væri notaður í byggingarefni sem ekki væri hægt að endurvinna að líftíma loknum. Slíkt myndi einnig teljast til endurvinnslu. Það er eðlilegt að gæði hráefna rýrni við endurvinnslu, eins og á við um bylgjupappa, en sum hráefni má endurvinna nánast endalaust án þess að gæði þeirra rýrna, til dæmis suma málma.

Allur gangur er á því hvernig rekstrarform endurvinnslustöðva er. Einkaaðilar reka sumar endurvinnslustöðvar þeirra, til dæmis endurvinnslu á málmum í málmbræðslum, endurvinnsla á plasti, einkum heyrúlluplasti, leysiefni eru endurunnin í einhverjum mæli og sömuleiðis endurvinnsla er á lífrænum úrgangi með jarðgerð. Endurvinnsla á úrgangi frá Íslandi fer einnig að miklu leyti fram af einkaaðilum utan landsteinanna.

Dæmi eru um að sveitarfélög reki jarðgerðarstöðvar í samstarfi með öðrum eða ein og sér. Lífrænn úrgangur er auðlind sem hægt er að skila aftur í hringrás jarðvegs og getur haft mikilvægt hlutverk sem áburðargjafi. Hreinleiki moltu hefur verið vandamál í einhverjum tilfellum, því allt sem fer inn í jarðgerðarstöð skilar sér í moltuna. Erfitt er t.d. að hreinsa plast, gler og aðskotahluti úr moltunni eftir á. Því er lykilatriði að vanda til verka og fræða öll þau sem skila lífrænum úrgangi sem fer í jarðgerð um mikilvægi góðrar flokkunar. Jarðgerðarstöðvar þurfa starfsleyfi, ýmist frá Umhverfis- og orkustofnun eða heilbrigðisnefnd en Matvælastofnun veitir markaðsleyfi fyrir afurð stöðvanna og sér um eftirlit með vörunni. Áður fyrr var þörf á ráðgefandi áliti frá Umhverfis- og orkustofnun vegna markaðssetningar á moltu en slíks er ekki lengur þörf heldur þarf einungis að skrá afurðina hjá Matvælastofnun.

Við vissar aðstæður má nota óvirkan úrgang beint til fyllingar. „Fylling“ felur í sér að hentugur úrgangur er notaður til endurheimtar á graftarsvæðum eða á tæknilegan hátt við landmótun, til dæmis við vegagerð, endurheimt á námusvæðum, gerð skipulagðra landfyllinga eða gerð varnargarða. Úrgangur sem er notaður til fyllingar verður að koma í staðinn fyrir annað efni sem er ekki úrgangur sem hefði annars verið notað og takmarkast við það magn sem er nauðsynlegt til að ná markmiðum fyllingarinnar. Ágætt er að miða við að úrgangur sem notaður er til fyllingar komi í staðinn fyrir efni sem annars hefði verið aðkeypt, þótt það sé ekki algild regla. Mikilvægt er að fyllingaraðgerðin sjálf sé meginmarkmiðið, ekki að losa handhafa við úrgang. Umhverfis- og orkustofnun hefur gefið út leiðbeiningar sem notast má við til að meta hvort um fyllingu eða urðun úrgangs sé að ræða. Úrgangur sem notaður er til fyllingar heyrir að undir úrgangslöggjöf og aðilar sem meðhöndla slíkan úrgang eiga að skila skýrslum til Umhverfis- og orkustofnunar með upplýsingum um tegund og magn, uppruna eftir atvinnugreinaflokkum og sveitarfélögum og ráðstöfun úrgangsins.