Sveitarfélög sjá að stærstum hluta um þá förgun úrgangs sem fram fer hér á landi, þ.e. með rekstri urðunarstaða eða brennslustöðva fyrir úrgang. Umhverfis- og orkustofnun veitir starfsleyfi fyrir förgunarstaði úrgangs. Í reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs eru ákvæði um rekstur og vöktun urðunarstaða á meðan þeir eru í rekstri og einnig um lokun urðunarstaða og eftirlit með aflögðum urðunarstöðum.
Rekstraraðili förgunarstaðar, hvort sem um er að ræða sveitarfélag, byggðasamlag eða einkaaðila, skal innheimta gjald fyrir förgun úrgangs. Gjaldið skal nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins, þ.m.t. uppsetningu og rekstri viðkomandi förgunarstaðar. Þar sem úrgangur er urðaður skal gjaldið einnig, að svo miklu leyti sem unnt er, standa undir kostnaði sem fylgir því að setja fjárhagslega tryggingu eða jafngildi hennar, áætluðum kostnaði við lokun staðarins og nauðsynlegu eftirliti í kjölfar lokunar í 30 ár.
Strangar reglur gilda um rekstur urðunarstaða. Við urðun úrgangs skal beita bestu fáanlegu tækni og einungis er heimilt að urða úrgangs sem hefur hlotið meðferð sem breytir eiginleikum úrgangsins þannig að umfang hans minnkar, af honum stafar síður hætta eða urðun verður einfaldari. Dæmi um slíka meðferð eru flokkun og böggun úrgangs.
Óheimilt er að urða sérsafnaðan úrgang sem er pappír eða pappi, málmur, plast, gler, lífúrgangur, textíll eða spilliefni, nema þann úrgang sem eftir verður og hentar hvorki til endurnotkunar né endurvinnslu, og í þeim sjaldgæfu undantekningartilvikum sem urðun er sá kostur sem skilar bestri heildarniðustöðu fyrir umhverfið. Einnig er óheimilt að taka á móti aukaafurðum dýra á urðunarstað nema að undangenginni þrýstisæfingu.
Þar sem úrgangur skal endurnýttur í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs að eins miklu leyti og unnt er, en í þeirri forgangsröðun er förgun sísti valkosturinn, og í ljósi þess að framleiðendur og innflytjendur ýmissa vöruflokka bera ábyrgð á úrvinnslu sinna vara í gegnum framlengda framleiðendaábyrgð, ættu urðunarstaðir ekki að þurfa að taka við þeim úrgangsflokkum sem heyra undir Úrvinnslusjóð og veiðarfærum sem innihalda plast, nema í undantekningartilvikum.
Dæmi um aðgerðir sem snerta förgunarstaði og lokun starfandi stöðva
Bætt nýting hauggass á urðunarstað: Kanna áhuga fyrirtækja á uppbyggingu starfsemi sem nýtir metan úr hauggasi á urðunarstað svæðisins.
Lokun óleyfilegra urðunarstaða fyrir óvirkan úrgang: Óleyfilegum urðunarstöðum fyrir óvirkan úrgang, svokölluðum jarðvegsippum, lokað. Ef loka á urðunarstað er unnið eftir fyrirmælum Umhverfis- og orkustofnunar um frágang og vöktun aflagðra urðunarstaða í því ferli.
Orkuendurnýtingu í stað urðunar: Gildandi starfsleyfi fyrir urðunarstað sveitarfélagsins ekki endurnýjað og úrgangur sem þarf að farga fari til orkuendurnýtingar í samstarfi við fleiri sveitarfélög á svæðinu.