Hjá lögaðilum fellur til annars vegar rekstrarúrgangur og hins vegar heimilisúrgangur, til dæmis eldhúsúrgangur frá mötuneyti eða umbúðir af vörum sem keyptar eru inn. Sveitarfélög bera ábyrgð á söfnun, flutningi og meðhöndlun alls heimilisúrgangs í sveitarfélaginu, einnig frá lögaðilum. Þótt ábyrgðin á söfnun heimilisúrgangs frá lögaðilum liggi hjá sveitarfélaginu hefur útfærslan hérlendis þó oftast verið sú að lögaðilar semja beint við verktaka um söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélög sinna einungis þeirri þjónustu fyrir lögaðila ef enginn verktaki sinnir þjónustu svæðinu. Þessi útfærsla er tilkomin af flækjustigi við það að sveitarfélag stígi inn á samkeppnismarkað með því að veita þjónustu sem verktakar geta þegar veitt.
Þar sem sveitarfélög bera ábyrgð á söfnun heimilisúrgangs frá lögaðilum, þurfa þau að geta staðfest með einhverjum hætti að lögaðilar séu raunverulega að skila af sér heimilisúrgangi til réttrar meðhöndlunar, s.s. með því að lögaðili afhendi sveitarfélagi afrit af samningi við verktaka, fylgst sé með tölfræði úrgangs í mælaborði á úrgangur.is eða með öðrum reglubundnum úttektum.
Sveitarfélag ákveður fyrirkomulag á söfnun rekstrarúrgangs en lögaðilar sjá sjálfir um flutning úrgangsins til söfnunar- eða móttökustöðva eða semja við verktaka um framkvæmdina. Sveitarfélög geta gefið fyrirmæli í samþykkt um meðhöndlun úrgangs sem tekur til rekstrarúrgangs.
Sömu kröfur gilda um heimilisúrgang sem fellur til hjá lögaðilum og á heimilum. Lögaðilum er skylt að flokka heimilisúrgang á sinni lóð með sama hætti og íbúar. Flokkun skal taka mið af að úrgangur skal meðhöndlaður í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, að eins miklu leyti og unnt er.
Byggingar- og niðurrifsúrgangur skal flokkaður í a.m.k. spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs.
Úrgangur frá lögaðilum getur verið mjög sértækur og viðkomandi aðilar geta í slíkum tilfellum sjálfir verið best til þess fallnir að sjá um meðhöndlun úrgangsins og er það í samræmi við mengunarbótareglu umhverfisréttarins. Dæmi um þetta fyrirkomulag er sértækur rekstrarúrgangur frá iðnaði sem krefst sérhæfðra innviða, öryggisráðstafana eða þekkingar til að meðhöndla.
Lögaðilar sem farga eigin úrgangi á framleiðslustað eða flytja utan eigin úrgang til meðhöndlunar skila árlega skýrslu til Umhverfis- og orkustofnunar um úrgang sem þeir meðhöndla, með upplýsingum um tegundir úrgangsins og magn, uppruna eftir atvinnugreinaflokkum og sveitarfélögum og ráðstöfun hverrar tegundar sbr. umfjöllun í kafla 4.4.