Eðli málsins samkvæmt getur hver sem er verið handhafi úrgangs, s.s. einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir. Sú skylda hvílir á handhafa úrgangs, hvort sem það er sá sem úrgangurinn fellur til hjá eða sá sem hefur hann í sinni vörslu, að færa allan úrgang til viðeigandi meðhöndlunar. Í því felst að færa hann beint til endurnýtingar, losa úrgang í sorpílát, á grenndar- eða söfnunarstöð eða skila honum til móttöku- eða endurnýtingarstöðvar. Íbúum er þó heimilt að losa lífúrgang í heimajarðgerð.

Skyldur framleiðanda úrgangs eða handhafa úrgangs til að endurnýta eða farga úrgangi falla að jafnaði ekki niður þó að úrgangur hafi verið fluttur til opinberra aðila eða einkaaðila. Einstaklingum og lögaðilum er skylt að flokka heimilisúrgang í samræmi við reglur um sérstaka söfnun. Einnig skal handhafi byggingar- og niðurrifsúrgangs flokka úrganginn á upprunastað í sjö flokka. Gæta skal þess að ekki hljótist af mengun eða annar skaði fyrir umhverfi og að úrgangurinn uppfylli þær kröfur sem settar eru og við eiga, s.s. um flokkun og takmörkun á aðskotahlutum, þannig að úrgangurinn henti til endurnýtingar.

Lögregla getur sektað fyrir óheimila losun úrgangs, þ.e. losun úrgangs annarsstaðar en á móttökustöð eða í sorpílát, þ.m.t. grenndargáma og heimajarðgerð. Að fleygja rusli á víðavangi er dæmi um slíkt brot. Hafi úrgangur dreifst eða sé meðhöndlun úrgangs ábótavant að öðru leyti getur heilbrigðisnefnd krafist þess að viðkomandi aðili hreinsi upp og geri viðeigandi ráðstafanir. Sé hinn brotlegi með starfsleyfi hjá Umhverfis- og orkustofnun eða um er að ræða óheimila urðun úrgangs er það Umhverfis- og orkustofnun sem krefst úrbóta. Umhverfis- og orkustofnun er einnig heimilt að beita stjórnvaldssektum vegna óheimillar losunar úrgangs og kæra slík brot til lögreglu.

Handhafi úrgangs skal almennt standa straum af raunkostnaði, eða því sem næst, við meðhöndlun úrgangsins sem hann losar sig við, í samræmi við mengunarbótaregluna. Inntak mengunarbótareglunnar er að sá sem er ábyrgur fyrir mengun og umhverfisspjöllum skal greiða kostnaðinn sem hlýst af því að laga eða koma í veg fyrir skaðann.

Sveitarfélag getur útfært frekara verklag þegar handhafi úrgangs ber sig ekki rétt að við flokkun og skil úrgangs til meðhöndlunar, bæði í samþykkt um meðhöndlun úrgangs og lögreglusamþykkt.

Lóðarhafar bera ábyrgð á aðstöðu fyrir söfnun úrgangs sem til fellur á sinni lóð og að flokkun og skil úrgangs sé í samræmi við gildandi reglur í sveitarfélaginu. Þeir bera ábyrgð á aðstöðusköpun, þrifum á aðstöðu og ílátum og að aðgengi íbúa og hirðuaðila að ílátum sé gott, s.s. með snjómokstri og hálkuvörnum.