Þjónustuaðilar er fjölbreyttur hópur verktaka og rekstraraðila sem veita úrgangsþjónustu. Sumir sérhæfa sig á tilteknu sviði og hafa starfsleyfi fyrir móttöku, flutning úrgangs eða aðra meðhöndlun tiltekinnar tegundar úrgangs. Aðrir taka að sér úrgangsþjónustu á breiðu sviði fyrir nær allar gerðir úrgangs. Þjónustuaðilar eiga viðskipti sín á milli og eru fjölmörg dæmi um að úrgangur sé framseldur á milli aðila.
Sveitarfélög geta gert samninga við þjónustuaðila með opinberum innkaupum vegna þeirra krafna sem gerðar eru til þeirra um meðhöndlun úrgangs í viðkomandi sveitarfélagi og einnig vegna reksturs eigin stofnana. Ólíkt er á milli sveitarfélaga hvaða þættir eru á hendi sveitarfélagsins og hvað er boðið út. Ábyrgð sveitarfélaga á meðhöndlun úrgangs fellur ekki niður þó að hluta þjónustunnar sé útvistað og sinnt af þjónustuaðilum.
Sjálfboðaliðar geta tekið að sér vissa þjónustu, líkt og almannaheillasamtök sem safna fötum og öðrum textíl og íþróttafélög, björgunarsveitir og Bandalag íslenskra skáta sem safna einnota drykkjarumbúðum með skilagjaldi. Ef kemur til samstarfs á milli sveitarfélags og góðgerðarfélags um söfnun og meðhöndlun ákveðinnar tegundar úrgangs, s.s. textíls, getur það aðeins farið fram ef ekki kemur til fjárhagslegs endurgjalds fyrir veitta þjónustu. Mælst er til þess að gerður sé þjónustusamningur um slíkt samstarf og hvaða kröfur séu fyrir um þjónustustig slíks samstarfs, t.d. hversu oft skal tæma gáma, umhirða á svæði sem gámur stendur o.s.frv.
Aðilar sem meðhöndla úrgang skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd eða Umhverfis- og orkustofnun eftir því hvers eðlis meðhöndlunin er. Beita skal bestu aðgengilegu tækni við meðhöndlun úrgangs, þar sem slíkt hefur verið skilgreint, til að draga úr álagi á umhverfið.
Þjónustuaðilar, endurvinnslufyrirtæki og endurnýtingaraðilar sem bera ábyrgð á meðhöndlun úrgangs skila skýrslu til Umhverfis- og orkustofnunar um úrgang sem þeir meðhöndla, með upplýsingum um tegundir úrgangsins og magn, uppruna eftir atvinnugreinaflokkum og sveitarfélögum og ráðstöfun hverrar úrgangstegundar. Framleiðendur úrgangs sem meðhöndla eigin úrgang á framleiðslustað eða flytja utan eigin úrgang til meðhöndlunar skila sambærilegri skýrslu. Umhverfis- og orkustofnun birtir niðurstöður skýrslnanna á heimasíðunni úrgangur.is.