Umhverfis- og orkustofnun hefur fjölþætt hlutverk í úrgangsmálum. Stofnunin hefur yfirsýn yfir málaflokkinn og ber meginþungann af eftirliti með framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs og með reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
Stofnunin heldur utan um tölfræði úrgangsmála, tekur á móti upplýsingum frá aðilum sem meðhöndla úrgang og birtir tölulegar upplýsingar fyrir landið í heild. Stofnunin annast öflun og miðlun upplýsinga um tegundir úrgangs og magn, uppruna og ráðstöfun úrgangs eftir sveitarfélögum. Sendar eru upplýsingar til Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) í samræmi við evrópskar reglur um upplýsingagjöf um úrgangsmál, en Hagstofa Evrópusambandsins birtir ýmsa tölfræði aðildarríkja ESB um úrgangsmál
Umhverfis- og orkustofnun vinnur tillögur að stefnu um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir og leggur fyrir ráðherra. Tillögurnar skulu unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila eftir því sem við á.
Stofnunin hefur eftirlit með og veitir starfsleyfi, skv. I viðauka reglugerðar nr. 550/2018, fyrir förgunarstaði úrgangs og fyrir söfnunar- og móttökustöðvar ef þær eru reknar í nánum landfræðilegum tengslum við förgunarstaði, sem og fyrir meðhöndlun spilliefna, staði fyrir námuúrgang, endurvinnslustöðvar og endurvinnslu skipa yfir 500 brúttótonn. Eins er stofnunin ábyrg fyrir leyfisveitingum vegna flutnings úrgangs milli landa og eftirliti með flutningi úrgangs. Umhverfis- og orkustofnun getur sett ákvæði í starfsleyfi sem heimilar rekstraraðilum förgun á eigin úrgangi á framleiðslustað.
Umhverfis- og orkustofnun hefur eftirlit með að svæðisáætlanir séu gerðar og leggur faglegt mat á efni þeirra.
Stofnunin getur veitt ráðgefandi álit um það hvort úrgangur hætti að vera úrgangur þegar hann hefur farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, sbr. reglugerð um endurnýtingu úrgangs nr. 1078/2015. Þar með gefst aðilum, sem framleiða afurðir með því að endurnýta úrgang, tækifæri til þess að markaðssetja afurð sína sem vöru. Með þessu opnast leið til að breyta úrgangi aftur í vöru, með endurnýtingaraðgerð, jafnvel þótt ekki liggi fyrir sérstök viðmið um lok úrgangsfasa.
Umhverfis- og orkustofnun sér um gerð almenns fræðsluefnis um úrgangsmál og úrgangsforvarnir sem stofnunin miðlar til almennings. Fræðslustarf Umhverfis- og orkustofnunar er unnið í samvinnu við sveitarfélög og Úrvinnslusjóð. Dæmi um fræðsluverkefni er verkefnið Saman gegn sóun þar sem meðal annars er fjallað um matarsóun.
Umhverfis- og orkustofnun er einnig heimilt að kæra til lögreglu brot á lögum um meðhöndlun úrgangs.