Sveitarstjórn skal sjá til þess að tiltækur sé farvegur fyrir allan úrgang sem fellur til innan sveitarfélagsins. Farvegirnir þurfa ekki allir að vera staðsettir innan sveitarfélagsins sjálfs, heldur mega vera staðsettir annars staðar. Sveitarstjórnir eiga að sjá til þess að starfsræktar séu söfnunarstöðvar og móttökustöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu sem ekki er skylt að safna innan lóðarmarka. Rekstur slíkra stöðva má vera í samstarfi við aðrar sveitarstjórnir og getur reksturinn hvort sem er verið í höndum sveitarfélagsins eða honum útvistað í gegnum þjónustusamning við verktaka. Ábyrgð sveitarfélagsins á rekstrinum er til staðar hvor leiðin sem er farin.

Grenndarstöðvar eru staðsettar í nærumhverfi íbúa og þjóna sem söfnun fyrir sérsafnaðan úrgang sem ekki er safnað á lóðum íbúa og/eða lögaðila. Grenndarstöðvar eru oftast ómannaðar stöðvar staðsettar á landi sveitarfélaga. Á grenndarstöðvum fer fram sérstök söfnun, s.s. á gleri, málmi og textíl sem ekki er safnað við heimili eða hjá lögaðilum. Í einhverjum tilfellum er öðrum úrgangsflokkum einnig safnað þar, til dæmis pappír, pappa, og plasti. Söfnun drykkjarumbúða með skilagjaldi fer einnig oft fram á slíkum stöðvum. Ef bæði íbúar og lögaðilar nota grenndarstöðvar þarf að gera ráð fyrir því í gjaldskrárgerð og innheimtu.

Á söfnunarstöðvum er tekið á móti meira magni af úrgangi en á lóðum og á grenndarstöðvum frá bæði íbúum og fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar, endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar eða er fluttur á móttökustöð.

Á móttökustöð er tekið við úrgangi til geymslu, umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Inn á móttökustöð kemur úrgangur frá þeim sem sinna sérstakri söfnun á lóðum íbúa eða lögaðila, frá söfnunarstöðvum og stærri farmar frá fyrirtækjum. Úrgangurinn fer þaðan til endurnýtingar eða förgunar innanlands eða erlendis. Urðunarstaðir, brennslustöðvar og fyllingarstaðir falla undir skilgreiningu á móttökustöð.

Söfnunar-, móttöku- og endurnýtingarstöðvar, þar með taldir þeir staðir þar sem úrgangur er notaður í fyllingu, þurfa að hafa gilt starfsleyfi, hvort sem þær eru á vegum sveitarfélags eða lögaðila. Í samþykkt sveitarfélagsins ætti að tilgreina hlutverk mismunandi stöðva og hvert íbúar og lögaðilar skuli fara með mismunandi tegundir úrgangs. Endurnýtingarstöðvar eru t.d. jarðgerðar- og gasgerðarstöðvar þar sem meðhöndlun á lífrænum úrgangi fer fram. Umhverfis- og orkustofnun gefur út ráðgefandi álit um lok úrgangsfasa og getur álitið nýst sveitarfélögum sem hyggja á að beita nýrri tækni við meðhöndlun úrgangs.

Dæmi um aðgerðir til að bæta þjónustu grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva

Bætt umgengni á ómönnuðum stöðvum: Koma upp myndavélakerfi á ómönnuðum grenndar- og söfnunarstöðvum þar sem borið hefur á slæmri umgengni.

Bætt kostnaðarþátttaka lögaðila: Komið verður upp bílavog á stöðvunum og innheimt er eftir „borgað þegar hent er“ kerfi hjá lögaðilum sem koma með stærri farma en 1 m3 enda greiða þeir ekki þjónustugjald með fasteignagjöldum eins og íbúar.

Aukin endurnotkun: Koma upp nytjagámum á söfnunarstöðvum sveitarfélagsins.

Bætt söfnun spilliefna og raftækja: Bjóða upp á söfnun á spilliefnum og raftækjum á tilteknum stöðum í sveitarfélaginu tvisvar á ári.

Bætt aðgengi að móttöku skilagjaldsumbúða: Leita eftir samstarfi við Endurvinnsluna hf. um að koma upp móttöku á drykkjarumbúðum með skilagjaldi á svæðinu. Leita eftir samstarfi við almannaheillasamtök eða aðra aðila við að koma upp söfnun á drykkjarumbúðum með skilagjaldi á grenndar- og söfnunarstöðvum í sveitarfélaginu.

Sérsöfnun nýrra úrgangsflokka: Tryggt sé að söfnunargámar fyrir þá flokka sem ekki er safnað við húsvegg séu til staðar á grenndarstöðvum. Þessir flokkar eru yfirleitt málmar, textíll og gler.

Aðstaða og aðgengi bætt: Söfnunar- og móttökustöðvar stækkaðar með tilliti til móttöku á fleiri úrgangsflokkum og með hliðsjón af bættu og öruggara aðgengi viðskiptavina og losunaraðila. Opnunartími skoðaður með tilliti til þess að þjónusta við íbúa og lögaðila sé í takt við þarfir þeirra. Ílát og gámar merkt með samnorrænum flokkunarmerkingum úrgangstegunda.

Fyllingar: Skýrt sé á skipulagi hvar megi nota óvirkan úrgang í fyllingu og hversu mikið magn þurfi að losa á þeim stað, svo ekki leiki vafi á um hvort um urðun eða fyllingu sé að ræða.

Leiðbeiningar um flokkun bættar: Leiðbeiningar á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum bættar til að lágmarka úrgang sem fer í blandaðan úrgangsflokk og gert skylt að úrgangur sé annað hvort laus eða í glærum pokum. Verðskrá endurspegli fjárhagslega hvata til að draga úr magni blandaðs úrgangs. Borgað þegar hent er: Innleiða stafrænar og snjallar lausnir við innheimtu fyrir meðhöndlun úrgangs á söfnunar- og móttökustöðvum í sveitarfélaginu.