Rekstrarúrgangur er sá úrgangur sem fellur til við framleiðslu, þjónustu, verslun og í öðrum rekstri sem ekki er heimilisúrgangur. Úrgangur frá rekstraraðilum getur þess vegna ýmist verið rekstrarúrgangur eða heimilisúrgangur og það er eðlilegt að hvor tveggja falli til hjá sama rekstraraðila. Rekstrarúrgangur getur fallið til hjá einstaklingum t.a.m. úr sér gengin ökutæki, seyra og úrgangur við byggingu og niðurrif sem alltaf er skilgreint sem rekstrarúrgangur óháð því hvort það komi frá heimilum eða rekstri.
Rekstrarúrgangur getur verið mjög mismunandi að eðli og samsetningu. Sem dæmi má nefna úrgang sem fellur til í landbúnaði, byggingar- og niðurrifsúrgang og úrgang sem fellur til í iðnaði. Í sumum sveitarfélögum eru straumar rekstrarúrgangs margir og smáir en í öðrum tilfellum eru þeir fáir og stórir.
Það er hlutverk sveitarstjórnar að ákveða fyrirkomulag á söfnun rekstrarúrgangs innan sveitarfélags og að sjá til þess að farvegir séu tiltækir fyrir rekstrarúrgang sem fellur til innan sveitarfélagsins. Sveitarstjórn getur gefið fyrirmæli í samþykkt um meðhöndlun úrgangs sem tekur til úrgangs sem fellur til hjá lögaðilum ekki síður en hjá heimilum. Sveitarstjórnir sjá almennt ekki um söfnun og meðhöndlun rekstrarúrgangs.
Þótt sveitarstjórnir ákveði fyrirkomulag söfnunar rekstrarúrgangs, geta lögaðilar í sumum tilfellum sjálfir verið best til þess fallnir að sjá um ráðstöfun eigin úrgangs, enda getur hann þurft sérhæfða meðhöndlun. Það er ekkert sem mælir gegn því að rekstraraðilar sjái í meginatriðum um meðhöndlun síns eigin rekstrarúrgangs og er það í samræmi við mengunarbótareglu umhverfisréttarins. Í stefnu ráðherra, Í átt að hringrásarhagkerfi, er sett fram aðgerð sem snýr að því að athuga þörf á breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs í þeim tilgangi að tryggja að lögin kveði á um með nægjanlega skýrum hætti hvernig ábyrgðarskipting er á milli sveitarfélags og rekstraraðilans í slíkum tilvikum (aðgerð 26 í kafla 3.4.8).
Byggingar- og niðurrifsúrgangur er fyrirferðarmikill hluti rekstrarúrgangs og um hann gilda bæði sérstök markmið og önnur ákvæði. Samkvæmt gildandi markmiði fyrir byggingar- og niðurrifsúrgang skulu að minnsta kosti 70% byggingar- og niðurrifsúrgangs vera flokkuð þannig að hann sé hæfur til endurnýtingar áður en honum er skilað á viðurkennda móttökustöð og að 70% úrgangsins séu raunverulega endurnýtt. Flokka á byggingar- og niðurrifsúrgang í að minnsta kosti sjö flokka: spilliefni, timbur, steinefni, málma, gler, plast og gifs. Sveitarfélög skulu tryggja að til staðar séu farvegir fyrir flokkaðan byggingar- og niðurrifsúrgang sem stuðla að því að framangreindum markmiðum sé náð.
Byggingaraðilum er skylt að gera áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs í framkvæmdum. Þar skulu koma fram upplýsingar um skipulagningu, skráningu, flokkun, endurnýtingu og förgun úrgangs. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf út leiðbeiningar um meðhöndlun úrgangs í samráði við Grænni byggð sem vísa má umsóknaraðilum um byggingarleyfi á. Áætlun þessari skal skila til sveitarfélaga með umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdir yfir ákveðinni stærð:
- Nýbyggingar, viðbyggingar og breytingar á mannvirki – yfir 300 m2 brúttó flatarmál gólfflatar.
- Umfangsmiklar viðgerðir útveggja, svala, þaks o.fl. – yfir 100 m2 flötur verks.
- Niðurrif á byggingum eða hluta bygginga – yfir 100 m2 brúttó flatarmál gólfflatar.
- Framkvæmdir þar sem magn úrgangs er áætlað meira en 10 tonn.
Dæmi um aðgerðir til að bæta söfnun og meðhöndlun rekstrarúrgangs
Góðir innviðir séu til staðar til að koma úrgangi í endurnýtingu frekar en í förgun.
Bætt móttaka byggingar- og niðurrifsúrgangs: Bætt aðstaða á söfnunarstöð til að taka við flokkuðum byggingar- og niðurrifsúrgangi í spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs.
Bætt skráning á byggingar- og niðurrifsúrgangi: Verkferlar vegna umsókna um byggingarleyfi séu yfirfarnir til að tryggja að áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs sé skilað fyrir allar framkvæmdir þar sem það á við.
Endurnotkun byggingarefna, sérstaklega muna sem eru í góðu ástandi, jarðefna og óvirks úrgangs.
Áætlanir um endurnýtingu: Áður en farið er í niðurrif á byggingum á vegum sveitarfélagsins, skal gera endurnýtingaráætlun til að endurnota og endurnýta eins mikið af byggingarefni og hlutum og hægt er.
Bætt meðhöndlun úrgangs frá skipum: Útbúin verða viðmið um móttöku úrgangs frá skipum í samráði við hafnir og Umhverfis- og orkustofnun. Tryggt verður að söfnun á veiðarfæraúrgangi sé aðgengileg notendum og kostnaður vegna söfnunar og annarrar meðhöndlunar á veiðarfæraúrgangi verði greiddur af þeim sem bera framlengda framleiðendaábyrgð á þeim úrgangi.
Tryggari meðhöndlun áhættuúrgangs: Endurskoðun á fyrirkomulagi söfnunar og meðhöndlunar áhættuúrgangs. Bætt nýting dýraleifa: Upplýsingar um ábyrgð, söfnun og meðhöndlun dýraleifa er að finna á vefsíðu sveitarfélagsins.
Annar flokkur rekstrarúrgangs sem sérstök ákvæði gilda um eru aukaafurðir dýra. Aukaafurðir dýra eru í stuttu máli þau dýr eða þeir hlutar dýra sem ekki verða að matvælum, til dæmis hár, heila- og mænuvefur, sjálfdauð dýr, gæludýr, afskurðir o.s.frv. Viðamikið regluverk gildir um aukaaufurðir dýra þar sem helst ber að nefna lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerð nr. 674/2017 sem innleiðir umfangsmikla reglugerð frá Evrópusambandinu. Í þessu regluverki er kveðið á um meðferð og förgun aukaafurða dýra og er sá málaflokkur almennt undir stjórn Matvælastofnunar.
Aukaafurðir dýra falla aðeins undir lög um meðhöndlun úrgangs, og þar með undir ábyrgð sveitastjórna, þegar þeim er fargað með því að brenna þær, urða, eða þær notaðar í lífgas- eða myltingarstöð. Í reynd eru þetta algengustu meðhöndlunarleiðir aukaafurða dýra á Íslandi.
Hræ dýra sem hafa drepist á annan hátt en við slátrun eru sérstaklega undanþegin úrgangsregluverki og falla því ekki undir ábyrgðir sveitarstjórna í úrgangsmálum. Þetta á til dæmis við um riðufé sem skera þarf niður eða hræ sem þarf að farga vegna farsótta eins og salmonellu og flensu. Einnig eru saurefni, hálmur og annar náttúrulegur hættulaus efniviður undanskilin frá regluverkinu, að því gefnu að þau fari ekki í urðun, brennslu, lífgas- eða myltingarstöð, að þau séu notuð í búskap, skógrækt eða orkuframleiðslu á hátt sem sé hættulaus heilbrigði umhverfis og manna.
Þegar aukaafurðir dýra falla til sem úrgangur er það á ábyrgð handhafans að sjá til þess að þær séu meðhöndlaður samkvæmt bæði úrgangslögum og regluverki Matvælastofnunar. Hér er algengt að handhafar úrgangsins séu sláturhús, kjötvinnslur, þauleldisbú eða bændur. Lögaðilar skulu sjá til þess að settar kröfur séu uppfylltar á öllum stigum söfnunar, flutnings, annarrar meðhöndlunar, geymslu og förgunar.
Sveitarstjórn ber ábyrgð á að til staðar sé farvegur fyrir aukaafurðir dýra sem falla undir gildissvið úrgangslaganna sem verða til á yfirráðasvæði þeirra. Í því felst að sjá til þess að til staðar séu innviðir svo úrganginum sé:
a) safnað, hann auðkenndur og fluttur án ótilhlýðilegrar tafar og
b) honum sé fargað, með urðun, brennslu eða til lífgas- eða myltingar, sem uppfyllir kröfur reglugerðar nr. 674/2017.
Þau stjórntæki sem sveitarstjórnir hafa eru einkum tvö. Annars vegar að útfæra skyldur handhafa úrgangs í samþykkt um meðhöndlun úrgangs sem sveitarstjórn setur og hins vegar innheimta gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs. Sjá nánari umfjöllun í Viðauka 3.
Í þeim tilfellum sem aukaafurðir dýra teljast ekki til úrgangs fellur eftirlit með meðhöndlun þeirra alfarið undir verksvið Matvælastofnunar. Í öllum tilvikum hefur handhafi úrgangsins ríkar skyldur til að koma úrganginum í réttan meðhöndlunarfarveg.