
- Virka daga: 08:30 - 15:00
- 569-6000
- uos@uos.is
- Virka daga: 08:30 - 15:00
- 569-6000
- uos@uos.is
Sérstök söfnun er undirstaða þess að úrgangur sé meðhöndlaður í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs. Óheimilt er að blanda úrgangi sem hefur verið safnað sérstaklega við annan úrgang eða efnivið með aðra eiginleika. Sérstök söfnun felur í sér aðgreiningu úrgangsflokka og getur sú aðgreining verið söfnun úrgangsflokka í sitt hvort ílátið eða aðgreining úrgangsflokka í mismunandi pokum. Fyrri aðferðin, söfnun í aðskilin ílát, tryggir betur að aðskilnaður úrgangsflokka haldist í gegnum allt ferlið, frá söfnun til lokameðhöndlunar. Aðstæður og búnaður við söfnun og á móttökustöðvum hérlendis er ekki með þeim hætti í dag að hægt sé að sannreyna aðskilnað úrgangsflokka með því að nota poka á hátt sem tryggir gæði hráefnisins og svarar kostnaði.
Almennt má gera ráð fyrir því að söfnun tveggja eða fleiri úrgangsflokka í sama ílát í plastpokum uppfylli ekki kröfur laganna miðað við þá innviði sem nú eru til staðar innanlands. Lögin gera þá kröfu að komið sé í veg fyrir að úrgangur í þessum úrgangsflokkum blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika og að fyrirkomulag söfnunarinnar stuðli að því að markmiðum laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra verði náð í sveitarfélaginu, þ.m.t. töluleg markmið um endurvinnslu og aðra endurnýtingu. Forsenda þess að þessar kröfur séu uppfylltar er að úrgangsflokkarnir haldist aðskildir í gegnum allt ferlið frá söfnun til endanlegrar meðhöndlunar. Aðstæður og búnaður, annars vegar í hirðubílum og hins vegar í móttökustöðvum eru hérlendis ekki með þeim hætti að hægt sé að tryggja þennan aðskilnað. Þar af leiðandi verður ekki séð að umrædd aðferð uppfylli skilyrði laganna.
Skylt er að safna með sérstakri söfnun pappír og pappa, plasti, málmum, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum á eftirfarandi hátt:
Í samþykkt um meðhöndlun úrgangs skal útfæra hvernig sérstök söfnun fer fram og skilgreina réttindi og skyldur einstaklinga og rekstraraðila er varðar flokkun úrgangs, sorpílát, staðsetningu þjónustu, merkingar og nánara fyrirkomulag. Í henni er einnig hefð fyrir að útfæra gjaldheimtu sveitarfélags og hvaða aðgerðir er ráðist er í til að fylgja eftir að rétt sé flokkað.
Í samþykktum sveitarfélags þarf að koma fram að óheimilt sé að losa úrgang annars staðar en á viðeigandi staði, þ.e. í sorpílát og grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar. Þó sé heimilt að setja lífrænan úrgang í heimajarðgerð. Við flutning og geymslu úrgangs skal handhafi úrgangs gæta þess að ekki hljótist af mengun eða annar skaði fyrir umhverfi. Opin brennsla úrgangs er óheimil, að undanskildum skipulögðum brennum með starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti.
Tryggja þarf að til staðar sé farvegur fyrir þann úrgang sem ekkiverður endurnotaður eða endurunninn. Dæmi um slíkan úrgang er ryksugupokar, einnota grímur og samsettar umbúðir sem ekki er hægt að ná í sundur. Mælt er með því að ílát fyrir blandaðan úrgang og úrgang sem er ætlaður til endurnýtingar séu staðsett á sama stað því þannig er komið í veg fyrir að úrgangsstraumum sé spillt, svo sem með því að setja úrgang sem er hæfur til endurvinnslu með blönduðum úrgangi og öfugt. Notendur hafa tilhneigingu til að nýta þau ílát sem eru til staðar og því ákjósanlegt að staðsetja öll sorpílát á sama stað á lóðum.
Við meðhöndlun úrgangs skal nota samræmdar merkingar fyrir a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni. Merkingarnar eru birtar í reglugerð en hægt er að nálgast þær á heimasíðunni úrgangur.is.
Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum um sérstaka söfnun ef blönduð söfnun tiltekinna tegunda úrgangs hefur ekki áhrif á möguleika til endurnýtingar, sambærileg gæði úrgangsins eru tryggð og sérstök söfnun skilar ekki bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið, er ekki tæknilega möguleg eða hefur í för með sér óhóflegan kostnað.
Sérsök söfnun er meginreglan og þótt heimild sé til staðar til að veita sveitarfélögum undanþágu frá skyldu til sérstakrar söfnunar, eru skilyrðin fyrir undanþágunni mjög þröng og ólíklegt að nokkuð sveitarfélög uppfylli þau. Undanþágur eru hugsaðar fyrir undantekningatilfelli þegar aðstæður eru með þeim hætti að sérstök söfnun er ekki besta leiðin til að meðhöndla úrgang eða er ekki möguleg. Hver undanþágubeiðni er metin sérstaklega og þarf að rökstyðja beiðnina með tilliti til aðstæðna og skilyrða sem koma fram í lögunum. Undanþágur eru ekki hugsaðar til að gefa tímabundið svigrúm til að koma upp sérstakri söfnun.
Dæmi um aðgerðir til að bæta söfnun og meðhöndlun heimilisúrgangs og koma á sérstakri söfnun úrgangs
Bætt söfnun á pappír og pappa, plasti, lífúrgangi og blönduðum úrgangi: Koma upp ílátum fyrir flokkaðan úrgang við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Þar sem við á verður sameiginleg söfnun innan lóða og fyrir aðliggjandi lóðir.
Góð og árangursrík söfnun lífúrgangs: Pappírspokar undir lífúrgang frá heimilum gerðir aðgengilegir án endurgjalds á mönnuðum söfnunarstöðvum og leitað verður eftir samstarfi við verslanir á svæðinu til að dreifa pokunum.
Söfnun á gleri, málmum, textíl og skilagjaldsumbúðum: Setja upp grenndarstöðvar á aðgengilegum stöðum og verður staðsetning þeirra auglýst á vefsíðu sveitarfélagsins.
Enn betri söfnun spilliefna: Bæta aðstöðu við móttöku á spilliefnum á söfnunarstöðvum og bjóða upp á spilliefnasöfnun í sérstökum spilliefnabíl tvisvar á ári á völdum stöðum.
Stofnanir sveitarfélagsins sinni flokkun eigin úrgangs vel og reyni nýjungar á sínu eigin skinni.
Góð og hagkvæm nýting lífúrgangs í dreifbýli: Heimili í dreifbýli styrkt til kaupa á íláti til heimajarðgerðar eða íbúar sem stundi heimajarðgerð geti fengið smærri lífrænar tunnur. Boðið upp á fræðslu um heimajarðgerð og nýtingu moltu.
Lögaðilum sé veitt sérstök athygli við innleiðingu sérstakrar söfnunar til að tryggja að þeir séu meðvitaðir um sína skyldu til að flokka úrgang. Hreinleiki endurvinnslustrauma tryggður: Átak um hreinni endurvinnslustrauma þar sem heimili, stofnanir eða lögaðilar, eru upplýst um ef vart verður við ranga flokkun úrgangs í ílát undir endurvinnsluefni eða að endurvinnsluefni rata í ílát undir blandaðan úrgang.