Í svæðisáætlun er sett stefna og áherslur til framtíðar og verkefnum er forgangsraðað. Samþykktir eru tæki til að útfæra fyrirkomulag söfnunar úrgangs og þjónustustig ásamt því að skilgreina réttindi og skyldur einstaklinga og lögaðila. Sveitarfélög sem vinna sameiginlega svæðisáætlun geta unnið sameiginlega samþykkt í kjölfarið, en geta einnig gert það hvert fyrir sig. Ef þessum tveimur tækjum er beitt samhliða, má útfæra úrgangsstjórnun sveitarfélaga með skilvirkum hætti. Æskilegt er að í samþykktum sé tilgreint hvaða aðgerða skal grípa til ef notendur eða aðrir aðilar sem tilgreindir eru fara ekki eftir ákvæðum samþykktarinnar. Mikilvægt er að gjaldskrár fyrir meðhöndlun úrgangs styðji við framfylgd svæðisáætlunar og samþykkta sveitarfélagsins.

Þegar þörf á fjárfestingum og innviðauppbyggingu hefur verið skilgreind í svæðisáætlun og samþykkt um meðhöndlun úrgangs liggur fyrir er hægt að útfæra þjónustu sveitarfélagsins. Í sumum tilfellum þarf að taka frá landsvæði í skipulagi fyrir mikilvæga innviði, svo sem grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvar. Þannig er mikilvægt að skipulag og hönnun byggðar sé þannig að það styðji við stefnu sveitarfélagsins í úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis.

Sveitarfélög taka ákvörðun um hvort þau sinna sjálf eða útvista verkefnum á þeirra vegum, þ.m.t. í söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs. Framkvæmd innkaupa, útboða og samninga um verkefnin eru mikilvægir hlekkir í því að ná markmiðum og tryggja að rekstur og þjónusta séu eins og sveitarfélag ákveður. Vinna þarf útboðsgögn og samninga í takt við áherslur viðkomandi sveitarfélags og þá ábyrgð sem það ber samkvæmt lögum. Mismunandi er á milli sveitarfélaga hvaða þættir eru á hendi sveitarfélagsins og hvað er boðið út en ábyrgð sveitarfélaga á meðhöndlun úrgangs fellur ekki niður þó að hluta þjónustunnar sé útvistað og sinnt af verktökum.

Til að framkvæmd úrgangsstjórnunar gangi vel fyrir sig er æskilegt að ákvarða hvaða aðilar innan sveitarfélagsins beri ábyrgð á framkvæmd eða eftirliti með verkefnum eins og söfnun úrgangs, rekstri grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva, framkvæmd útboða og verðfyrirspurna, gerð samninga við verktaka og ráðstöfunaraðila. Æskilegt er að skilgreina hver hefur eftirlit með framkvæmd verkefna og gæðum. Einnig þarf að ákveða hvernig framfylgd með árangri aðgerða er háttað og því hvort markmið náist, hvaða eining innan stjórnsýslunnar fylgist með því og hvernig skuli fara með mál ef eitthvað gengur ekki eins og til er ætlast og þörf er á inngripi.