Samþykkt um meðhöndlun úrgangs er mikilvægt stjórntæki sem sveitarfélag hefur til úrgangsstjórnunar. Þar er mögulegt að skýra réttindi og skyldur einstaklinga og lögaðila varðandi hirðu og aðra þjónustu við meðhöndlun alls úrgangs í sveitarfélaginu, hvort sem þjónustan er veitt af sveitarfélaginu eða öðrum aðilum og hvort sem um er að ræða heimilis- eða rekstrarúrgang. Sveitarfélag hefur heimild til að gefa fyrirmæli sem það telur nauðsynlegt um flokkun og aðra meðhöndlun úrgangs sem fellur til innan sveitarfélagsins til þess að uppfylla skyldur sínar. Þetta á við um bæði fyrirkomulag heimilisúrgangs sem og rekstrarúrgangs.
Í samþykkt sveitarstjórnar um meðhöndlun úrgangs má tilgreina fyrirkomulag hirðu úrgangs, skyldur einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang og ákvarða stærð, gerð, staðsetningu og merkingu íláta undir úrgang auk ákvæða um söfnun við aðliggjandi lóðir. Samþykkt getur kveðið á um til hvaða meðhöndlunar úrgangur skal færður, annað hvort beint til endurnýtingar eða fyrst á grenndar-, söfnunar- eða móttökustöð og þaðan til endurnýtingar eða förgunar. Hægt er að tilgreina í samþykktinni verklag við innheimtu fyrir meðhöndlun úrgangs og hvaða aðgerða skal grípa til ef notendur fara ekki eftir ákvæðum um t.d. flokkun og skil til undirbúnings fyrir endurnotkun og endurvinnslu.
Útfæra skal fyrirkomulag sérstakrar söfnunar í samþykktinni umfram það sem kemur fram í lögum og reglum. Samþykktin er réttur vettvangur til að útfæra kröfur til lausna sem krefjast sérstaks búnaðar og aðkomuleiða við hirðu, s.s. gáma á yfirborði eða djúpgáma. Einnig ef sveitarfélag ákveður að setja kröfur um aðgengi og staðsetningu sorpíláta á lóðum í ákveðinni hámarksfjarlægð frá hirðubíl eða hafna losun sorpíláta þegar ekki er rétt flokkað eða aðgengi að sorpílátum er skert. Jafnframt er hægt að útfæra mismunandi fyrirkomulag í dreifbýli og þéttbýli sem og milli lögbýla/íbúðarhúsnæðis í dreifbýli og frístundabyggða. Til dæmis er heimilt í dreifbýli að skylda fasteignareigendur til að fara með úrgang á miðlægar söfnunarstöðvar í sveitarfélaginu. Hið sama á við um eigendur frístundahúsa. Eingöngu er skylt að sækja úrgang innan lóðar í þéttbýli.
Tvö eða fleiri sveitarfélög geta gert sameiginlega samþykkt, m.a. í tengslum við sameiginlega svæðisáætlun. Þannig er stutt við að samlegðaráhrif náist á sem flestum sviðum með samræmingu flokkunar, söfnunar, úrgangsmerkinga, meðhöndlunar úrgangs og samræmingu á skyldum einstaklinga og lögaðila.
Sniðmát fyrir samþykkt um meðhöndlun úrgangs er í viðauka 2.