Hafnaryfirvöldum ber að koma upp viðunandi aðstöðu fyrir móttöku úrgangs og farmleifa í öllum höfnum sem skal taka mið af þörfum skipa sem í höfnina koma. Áður en skip koma til hafnar er þeim skylt að senda tilkynningu til hafnarinnar um úrgang og farmleifar þar sem koma m.a. fram upplýsingar um tegund úrgangs um borð og hvort ætlunin sé að skila úrgangi í land. Það er því mikilvægt að hver höfn hafi móttökuaðstöðu sem samræmist þörfum skipa sem í höfnina koma.

Höfnum er skylt að gera áætlanir um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa, taka við og yfirfara tilkynningar skipstjóra um úrgang og farmleifar, en slíkar tilkynningar eru sendar í gegnum SafeSeaNet, hafa fullnægjandi móttökuaðstöðu fyrir úrgang og gefa út kvittanir fyrir móttöku á úrgangi.

Fyrirséð er að breytingar verði á regluverki um úrgang í höfnum á næstu mánuðum eða árum. Um væntanlegar breytingar er fjallað aftast í þessum kafla.

3.12.1 Áætlanir hafna

Hafnir þurfa að hafa áætlanir þar sem fram kemur hvaða innviðir þurfa að vera til staðar til að taka á móti hvers kyns úrgangi og úrgangsmagni sem kemur til viðkomandi hafnar. Áætlanir um móttöku úrgangs skulu gerðar í samráði við þá aðila sem nýta hafnirnar sem og þjónustuaðila úrgangsins eða aðra hlutaðeigandi aðila. Áætlanirnar skulu endurskoðaðar á 3 ára fresti en einnig eftir meiriháttar breytingar á rekstri hafnarinnar og skulu samþykktar af Umhverfis- og orkustofnun.

Kröfur varðandi áætlanirnar má finna í viðauka I við reglugerð nr. 1200/2014 um móttöku úrgangs og farmleifa en minni hafnir sem ekki eru reknar í atvinnuskyni og einkennast af dreifðri eða lítilli umferð skemmtibáta þurfa ekki að gefa út áætlun, svo fremi sem þeirra starfsemi sé samþætt úrgangsstjórnunarkerfinu í viðkomandi sveitarfélagi.

3.12.2 Tilkynningar um úrgang og farmleifar 

Skipstjóri skips á leið til hafnar sendir tilkynningu um úrgang og farmleifar til hafnarinnar að minnsta kosti 24 klukkustundum áður en áætlað er að skipið komi í höfn svo að höfnin geti undirbúið fullnægjandi móttöku úrgangs. Í tilkynningunni er magn úrgangs í hverjum flokki úrgangs tilgreint, auk geymslurými hvers flokks og magn þess úrgangs sem verður afhentur í næstu höfn. Hafnaryfirvöldum ber að fara yfir tilkynningar sem berast til hafnarinnar og fara fram á úrbætur ef þörf er á. Ef viðbótarupplýsingar berast ekki til hafnaryfirvalda þegar farið er fram á þær eða ef rökstuddur grunur leikur á að upplýsingar í tilkynningu séu ekki réttar skulu hafnaryfirvöld gera Umhverfis- og orkustofnun og Hafnarríkiseftirliti Samgöngustofu viðvart sem í framhaldi taka ákvarðanir um þær aðgerðir sem grípa skal til.

Tilkynningar um úrgang og farmleifar eru sendar inn í gegnum rafrænt tilkynningarkerfi SafeSeaNet út frá stöðluðu sniðmáti sem einnig er tilgreint í 2. viðauka reglugerðar 1200/2014 um móttöku úrgangs og farmleifa. 

Skip sem eru ríkiseign eða í ríkisrekstri sem um stundarsakir eru nýtt í þágu hins opinbera til annars en viðskipta sem og fiskiskip og skemmtibátar sem ekki mega flytja fleiri en 12 farþega eru undanþegin skyldu um skil á fyrir fram tilkynningunum. Einnig geta skip í áætlunarsiglingum sótt um undanþágu frá tilkynningum, afhendingarskyldu og úrgangsgjaldi til Umhverfis- og orkustofnunar. 

3.12.3 Móttökustöð úrgangs 

Í höfnum skal vera fullnægjandi móttökustöð úrgangs svo afhending úrgangs gangi vel fyrir sig. Hafnir ákveða sjálfar hvernig þetta er framkvæmt. Svo afhending sé sem skilvirkust er skynsamlegt að móttökuaðstaða í höfnum taki mið af þeirri flokkun sem fram kemur í tilkynningunum um úrgang og farmleifar en óhætt er að sameina flokka í móttökuaðstöðunni í samræmi við þá flokkun sem er til staðar í landi. Þá eiga áætlanir um móttöku úrgangs að greina hvers konar úrgangur er að koma til hafnarinnar og hvernig móttökuaðstaðan tekur mið af þeim úrgangi sem berst til hafnarinnar. 

Það er mikilvægt við gerð áætlana um móttöku úrgangs að samráð sé haft við þjónustuaðila úrgangsins til að tryggja að flokkunin samræmist endurvinnsluleiðum á landi. Það er því æskilegt að móttökuaðstaðan hafi aðskilda móttöku fyrir plast, pappír, matarleifar í samræmi við kröfur um sérstaka söfnun og samræmdar merkingar úrgangstegunda.

3.12.4 Afhendingarkvittanir 

Hafnir skulu gefa út afhendingarkvittanir fyrir móttöku úrgangs. Mikilvægt er að hafnirnar hafi í höndum góðar upplýsingar um það hver kyns úrgangur fellur til í þeirra höfnum. Hafnir eiga að gefa kvittun fyrir móttöku úrgangs til skipanna. Kvittanir nýtast einnig til að geta séð hvort sá úrgangur sem er að koma sé í samræmi við áætlun þeirra og tilkynningar skipstjóra um úrgang og farmleifar. Í þeim tilvikum þar sem að móttaka er í höndum verktaka er höfnum skylt að fara fram á afrit af móttökukvittunum þeirra. 

Með ofan töldum atriðum ættu hafnir að fá góða yfirsýn yfir hvernig móttökuaðstaða er sem skilvirkust og að sem best sé tryggt að úrgangur fari í viðeigandi meðhöndlun. Það er því mikilvægt að vanda til utanumhalds s.s. tilkynninga og kvittana sem er mikilvægur grunnur að gerð áætlana um móttöku úrgangs.

3.12.5 Framlengd framleiðendaábyrgð úrgangs í höfnum 

Umtalsverður hluti þess úrgangs sem skilar sér til hafna er úrgangur sem heyrir undir framlengda framleiðendaábyrgð, meðal annars veiðarfæri sem innihalda plast, svartolía sem og aðrir úrgangsstraumar sem falla undir kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar. Nánar er fjallað um framlengda framleiðendaábyrgð í kafla 4.7. 

Úrvinnslusjóður hefur samið við Olíudreifingu ehf. og Skeljung hf. um móttöku úrgangsolíu í höfnum. Sjóðurinn hefur einnig í gildi samning við Samband fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um ráðstafanir til að tryggja úrvinnslu þeirra veiðarfæra sem innihalda plast. Samningur sjóðsins og SFS er kominn til ára sinna en verið er að vinna í uppfærslu á samningnum. Að meginreglu á framlengd framleiðendaábyrgð að fjármagna söfnun, flutning úrgangs frá söfnunarstað til endurnýtingarstöðvar eða förgunarstaðar og úrvinnslu úrgangs, og á það einnig við um úrgang frá skipum í höfnum.

3.12.6 Alþjóðlegur eldhúsúrgangur 

Eldhúsúrgangur getur innihaldið leifar af dýraafurðum og því er mikilvægt að gæta sóttvarna þegar slíkur úrgangur er meðhöndlaður. Eldhúsúrgangur sem á uppruna sinn utan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki hæfur til endurvinnslu heldur er skylt að brenna hann, eða meðhöndla sérstaklega. Óheimilt er að urða alþjóðlegan eldhúsúrgang án undangenginnar meðhöndlunar.

Óhætt er að endurvinna eldhúsúrgang sem engin hætta er á að hafi komist í snertingu við dýraafurðir sem eiga uppruna sinn utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ef vafi leikur á um hvort eldhúsúrgangur sé endurvinnsluhæfur má leita ráða hjá landamæraeftirliti Matvælastofnunar. Nánar er fjallað um meðhöndlun úrgangs frá alþjóðlegum flutningstækjum í Viðauka 7 og á vef Matvælastofnunar og Umhverfis- og orkustofnunar. 

3.12.7 Ný tilskipun ESB um móttöku úrgangs og farmleifa 

Evrópusambandið hefur gefið út nýja tilskipun um það hvernig móttökuaðstaða í höfnum til afhendingar úrgangs frá skipum skal hagað, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883. Þar er að finna uppfærðar kröfur um skyldu sveitarfélaga til móttöku á úrgangi úr skipum í höfnum. Nýja tilskipunin hefur ekki enn verið lögfest á Íslandi en hún verður það á næstu misserumog því er gagnlegt fyrir sveitarfélög að vera meðvituð um hana. 

Nýja tilskipunin inniheldur uppfærslu á þeim kröfum sem gerðar eru til áætlana hafna um móttöku úrgangs og farmleifa, en samkvæmt nýju tilskipuninni skal áætlunum skilað til yfirvalda á 5 ára fresti, í stað 3 ára fresti samkvæmt núgildandi reglugerð, þó oftar ef breytingar verða á móttökuaðstöðunni.

Einnig er gerð uppfærsla á stöðluðu eyðublaðsformi fyrir tilkynningar um afhendingu úrgangs og farmleifa þar sem ríkari kröfur eru gerðar um að tilgreina mismunandi flokka úrgangs sem áætlað er að skila í höfnum, en sú flokkun byggir á MARPOL-samningnum. Móttökuaðstaðan mun þurfa að samræmast þessum breytingum en um leið þarf að tryggja að úrgangsstraumar séu aðskildir hver frá öðrum í samræmi við þá flokkun úrgangs sem kröfur eru gerðar um í landi. Þar sem sveitarfélög bera ábyrgð á því að farvegur sé til staðar fyrir allan úrgang, er mikilvægt að þau séu meðvituð um hvar geta komið upp misræmi í úrgangskeðjunni.

Þá er sniðmát kvittunar sem hafnir bera ábyrgð á að sé gefin út við móttöku úrgangs, uppfært í 3. viðauka tilskipunarinnar.