Þau sveitarfélög sem innihalda millilandaflugvelli eða reka hafnir þar sem skip losa úrgang sem á uppruna sinn frá ríkjum utan EES-Svæðisins þurfa að hafa til staðar ferla sem tilgreina í hvaða tilvikum endurvinna megi úrgang frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð og hvenær farga þarf úrgangnum vegna hættu á smiti dýrasjúkdóma.
Heimilt er að endurnýta úrgang frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð, svo sem skipum og millilandaflugi, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Með endurnýtingu úrgangsins geta sveitarfélög sparað sér töluverða fjármuni með því að minnka það magn úrgangs sem senda þarf til brennslu, minnka magn áhættuúrgangs og tryggja að úrgangur sem er hæfur til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar rati í slíka meðhöndlun.
Úrgangur frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð hefur lengi verið til trafala á Íslandi. Vegna óvissu um framkvæmd regluverks um varnir gegn dýrasjúkdómum var áður fyrr allur úrgangur sem átti uppruna sinn utan Íslands sendur til brennslu eða til urðunar. Nú hefur óvissu um framkvæmd regluverksins verið eytt og framkvæmdinni breytt í takti við túlkun annarra Evrópuríkja þannig að aðeins er þörf á að farga þeim úrgangi sem talin er hætta á að innihaldi dýraafurðir eða gæti hafi komist í snertingu við dýraafurðir frá þriðja ríki.
Umhverfis- og orkustofnun og Matvælastofnun hafa gefið út leiðbeiningar um meðhöndlun úrgangs frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð þar sem kveðið er á um í hvaða tilvikum þarf að farga úrgangi vegna smitvarna og í hvaða tilvikum úrgangur hentar til endurnýtingar. Gerður er greinarmunur á úrgangi eftir því hvort hann eigi uppruna sinn á evrópska efnahagssvæðinu eða frá þriðja ríki, þ.e.a.s. ríkjum utan evrópska efnahagssvæðisins. Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vef Umhverfis- og orkustofnunar og Matvælastofnunar auk þess sem algengum spurningum er svarað þar.
Til þess að gera greinarmun á því hvort endurnýta megi úrgang frá millilandaflugi og millilandasiglingum eru eftirfarandi atriði lögð til grundvallar:
- Óheimilt er að endurnýta úrgang sem hætta er á að komist hafi í snertingu við dýraafurðir frá þriðja ríki. Þetta á til dæmis við um blandaðan úrgang úr farþegaflugi.
- Óheimilt er að endurnýta úrgang sem er líklegur til að innihalda matarleifar frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð nema til staðar séu verkferlar sem tryggja að úrgangurinn innihaldi ekki dýraafurðir frá þriðja ríki. Þetta á til dæmis við um ílát þar sem farþegar geta hent nestisafgöngum eða eldhúsúrgang af skipum sem bjóða upp á mat sem inniheldur dýraafurðir frá þriðja ríki.
- Heimilt er að endurnýta hvers kyns úrgang frá þriðja ríki sem ekki er hætta á að innihaldi dýraafurðir frá þriðja ríki. Þetta á til dæmis við um umbúðir af ræstivörum, skrifstofupappír, o.s.frv.
- Heimilt er að endurnýta hvers kyns úrgang sem á uppruna sinn á Evrópska efnahagssvæðinu, jafnvel þótt hann gæti hafa komist í snertingu við dýraafurðir. Undir þetta falla til dæmis umbúðir utan um matvæli og matarleifar. Athugið að það gæti samt verið tilefni til að gæta varúðar þegar kemur að endurnýtingu slíks úrgangs því af honum getur stafað smithætta fyrir dýr og menn.