Flokkun úrgangs, umhverfisvænir neysluhættir og verkaskipting karla og kvenna – niðurstöður viðhorfskönnunar

30. janúar 2023

Konur bera meiri þunga af flokkun og endurvinnslu úrgangs á heimilum en karlar. Hugur er í landsmönnum sem flestir telja sig flokka allan sinn úrgang og hafa áhuga á að flokka í enn fleiri flokka en mögulegt er nú þegar við heimili. Það má því telja líklegt að lagabreytingar sem tóku gildi 1. janúar muni leggjast vel í landsmenn.

84% kvenna hefur mikinn eða nokkurn áhuga á að flokka í fleiri flokka á móti 68% karla.

Þetta sýna niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar sem Gallup framkvæmdi fyrir Umhverfisstofnun í desember síðastliðnum. Könnunin var liður í verkefni sem Umhverfisstofnun hafði umsjón með fyrir hönd umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Markmið verkefnisins var að afla gagna um viðhorf og verkaskiptingu á heimilum þegar kemur að flokkun úrgangs og umhverfisvænum neysluháttum. Könnunin var sjálfstætt framhald á verkefni í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2020 til 2023 um kyn og neyslu.

Fjöldi tunna og aðstaða til flokkunar skiptir máli

Flestir landsmenn telja sig flokka allan úrgang sem fellur til innan heimilis en þegar spurt var nánar út í hvaða flokka úrgangs svarendur væru að flokka kom í ljós að um væri að ræða þá algengustu sem verið er að safna við heimili, s.s. plast og pappír en einnig voru flestir að flokka drykkjarvöruumbúðir með skilagjaldi. Um tveir þriðju landsmanna flokka raftæki, gler, spilliefni, textíl og málma en aðeins um þriðjungur flokkar lífrænan úrgang sérstaklega og var meirihluti þeirra sem flokka lífrænan úrgang búsettur á landsbyggðinni. Konur flokka úrgang í fleiri flokka en karlar og var t.a.m. nokkur munur á milli kynjanna er kemur að flokkun á textíl en 64% kvenna skila textíl til endurvinnslu á móti 48% karla.

Þegar spurt var „Hvað, ef eitthvað fengi þig helst til að flokka úrgang í fleiri flokka en þú gerir í dag?“ töldu 63% svarenda að mestu skipti að sveitarfélagið byði upp á ílát fyrir fleiri flokka við heimilið. Betri aðstaða til flokkunar inn á heimili var sá möguleiki sem næstflestir merktu við. Flestir svarenda voru öruggir með hvernig á að flokka úrgang sem fellur til á heimilinu eða 78% sem töldu sig vita alltaf eða oftast í hvaða ílát á að flokka og var ekki teljandi munur á kynjunum hvað það varðar.

Konur eyða meiri tíma í flokkun á viku

Nokkur munur var á hversu miklum tíma á viku karlar og konur eyða í að hreinsa, flokka og losa flokkaðan úrgang í ílát, tunnur, grenndargáma og/eða á endurvinnslustöðvar. Að meðaltali eyða konur um 71 mín. í flokkun úrgangs á viku á meðan karlar eyða 59 mín. Greining eftir kyni og hvort að fólk sé í sambúð sýnir að einhleypir karlar eyða minnstum tíma í flokkun eða að meðaltali 43 mín. á viku. Konur í hjónabandi eða sambúð eyða mestum tíma, eða 74 mín. á viku.

Konur almennt með meiri þekkingu á umhverfismerkjum og líklegri til að selja og kaupa af endursölumörkuðum

Í könnuninni var spurt út í þekkingu á helstu umhverfismerkjum sem má finna á algengum vöruflokkum í verslunum og einnig spurt út í hegðun sem tengist umhverfisvænni neyslu. Konur virtust hafa meiri þekkingu á umhverfismerkjunum en karlar. Mesta þekkingu höfðu landsmenn á merki Svansins eða 87% og var lítill munur milli karla og kvenna. Konur eru jafnframt líklegri til að kaupa umhverfismerktar vörur en karlar.

Helmingur kvenkyns svarenda sögðust bæði fara með vörur í og kaupa vörur af endursölumörkuðum á móti 33% karla. Yngri aldurshópar eru líklegri til að koma vörum á endursölumarkaði og kaupa þaðan en eldri kynslóðir. Tekjulægri hópar voru líklegri til að fara með vörur í og/eða kaupa af endursölumörkuðum en aðrir tekjuhópar.

Ein spurningin sneri að því að hversu miklu leyti fólk veldi jólagjafir út frá umhverfisáhrifum gjafanna en söfnun svara stóð yfir á aðventunni. Konur voru líklegri en karlar til að velta umhverfisáhrifum fyrir sér við val á jólagjöfum eða 43% kvenna á móti 20% karla.

Rýnt í niðurstöður í samhengi við jafnrétti og nýju hringrásarlögin

Niðurstöðurnar eru ánægjulegar fyrir margra hluta sakir. Þær sýna að landsmenn flokka úrgang og hafa mikinn vilja til þess að gera betur í þeim efnum. Þá finnst flestum þar mestu skipta að sveitarfélögin skapi innviði fyrir íbúa til að flokka í fleiri flokka en einnig aðstaða heima fyrir. Um áramótin gengu í gildi nýju hringrásarlögin sem kveða á um frekari sérsöfnun á úrgangi og skylda heimili og lögaðila til að flokka heimilisúrgang í a.m.k. sjö flokka og skulu sveitarfélög safna þremur þeirra: plasti, pappa og lífrænum úrgangi, við heimili. Samkvæmt niðurstöðum þessarar könnunar eru landsmenn reiðubúnir að flokka betur og því má ætla að innleiðing á kröfum þessara nýju laga munu mælast vel fyrir á meðal landsmanna.

Niðurstöður könnunarinnar gefa hins vegar sterklega til kynna að konur beri þungann af flokkun úrgangs og umhverfisvænni neyslu á heimilinu. Konur eyða að meðaltali meiri tíma í flokkun en karlar og flokka úrgang í fleiri flokka. Þær eru einnig jákvæðari gagnvart flokkun og því að gera betur. Konur þekkja fleiri umhverfismerki og eru reiðubúnari að kaupa umhverfismerktar vörur en karlar og þær eru einnig mun líklegri en karlar til að nýta endursölumarkaði.

Þótt aukin flokkun úrgangs sé fagnaðarefni verður að gæta þess að breytingarnar verði ekki þess valdandi að auka álag á konur. Álag á konur inni á heimilum er nú þegar mikið og konur bera oftar en karlar ábyrgð á að sinna heimilisverkum og þriðju vaktinni. Samhliða innleiðingu lagabreytinga af því tagi sem liggja fyrir, verður að huga að því hvernig innviðum er háttað, s.s. aðgengi að tunnum eða stöðvum, svo tæming flokkunartunna verði ekki stærri álagsþáttur á konum en sem þegar er. Einnig þarf að huga að því hvernig megi virkja karla til að flokka og kaupa umhverfisvænar vörur til jafns við konur. Jafnframt gefa þessar niðurstöður tilefni til að rannsaka tengsl kyns og umhverfismála enn frekar en fáar rannsóknir hafa verið gerðar á Íslandi um tengsl þessara þátta. Einnig mætti horfa út fyrir hefðbundna kynjatvíhyggju og skoða tengslin út frá kynvitund einstaklinga.

Hér má nálgast niðurstöðurnar í heild sinni.

Fleiri fréttir