Flokkun og endurvinnsla frá flugvélum og skipum – nýjar leiðbeiningar fyrir rekstraraðila

14. desember 2022

Umhverfisstofnun og Matvælastofnun hafa gefið út leiðbeiningar um flokkun úrgangs frá flugvélum og skipum í alþjóðlegri umferð.

Hingað til hefur rekstraraðilum verið gert að brenna allan úrgang frá millilandaumferð en með nýrri túlkun Evrópuregluverksins og með tilliti til framkvæmdar í öðrum löndum hefur opnast sá möguleiki að endurvinna stóran hluta þessa úrgangs. Leiðbeiningarnar miða að því að styðja rekstraraðila við að standa rétt að flokkun og endurvinnslu úrgangs frá alþjóðlegri umferð og þær eru unnar að frumkvæði atvinnulífsins sem hefur sýnt málefninu mikinn áhuga.

Endurvinnsla úrgangs er mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir sóun og stuðla í leiðinni að aukinni hringrás auðlinda á Íslandi. Mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir atvinnulíf landsins hefur aukist gríðarlega samhliða hraðri fjölgun ferðamanna. Þannig er til mikils að vinna með að ná betur utan um þann úrgang sem fellur til í alþjóðlegri umferð. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu mikið magn úrgangs verður endurvinnsluhæft með aukinni flokkun í kjölfar útgáfu leiðbeininganna en það má líklegast telja í hundruðum tonna á mánuði.

Rekstraraðilar flutningstækja í alþjóðlegri umferð og úrgangsmeðhöndlunaraðilar geta nú þegar unnið eftir leiðbeiningunum en innleiðing þeirra gæti tekið einhvern tíma. Til að öðlast sem bestan árangur í úrgangsmálum er mikilvægt að fyrirtæki hugi fyrst og fremst að því að draga úr úrgangi eins og hægt er, en þar sem það er ekki mögulegt, sé úrgangur flokkaður rétt og endurvinnsluefnum haldið aðskildum frá blönduðum úrgangi.

Umhverfisstofnun mun standa fyrir kynningarfundi um leiðbeiningarnar í janúar, en dagsetning verður auglýst síðar.

Fleiri fréttir