Flokkum betur

Úrgangur sem skylt er að flokka er pappír og pappi, plast, matarleifar, málmar, gler, textíll og spilliefni. Einnig er skylt að flokka garðaúrgang þegar það á við. Notuðum rafhlöðum og ónýtum raftækjum skal safna og skila sérstaklega í viðeigandi móttöku. Þar að auki er fólk hvatt til að flokka flöskur og dósir. Allt sem ekki er flokkað fellur undir blandaðan úrgang. Alls eru þetta alls 9 úrgangsílát (geta verið fleiri) en með góðum lausnum þurfa þau ekki að taka mikið pláss.

Fylgdu eftirfarandi skrefum til að hámarka árangur við flokkun á þínum vinnustað.

Ekki búa til óþarfa rusl

Fyrirferðamesti úrgangurinn sem myndast að jafnaði á vinnustöðum er að miklu leyti umbúðir sem eru búnar til úr pappa eða plasti.

Er hægt að semja við framleiðendur eða birgja um að fá vörurnar í:

  • Stærri einingum?
  • Fjölnota umbúðum?
  • Efnisminni umbúðum?
  • Einfaldari umbúðum?
  • Engum umbúðum?

 

Einnig væri hægt að nota áfyllingarþjónustu, kaupa vél í staðinn fyrir drykki í flöskum og dósum, sleppa einnota glösum og bollum og vaska upp í staðinn.


Kannaðu stöðuna á vinnustaðnum þínum og fáðu fleiri til að koma með hugmyndir að því hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að rusl safnist upp að óþörfu.

Hvaðan kemur ruslið?

Stærð og fjöldi flokkunaríláta þurfa að svara þörfum hvers vinnustaðar fyrir sig svo þau fyllist ekki allt of fljótt. Hvers eðlis er úrgangurinn sem safnast upp? Á veitingastað safnast til dæmis upp mikið af matar- og eldhúsúrgangi en á saumastofu eða fataverslun mikill textíll.
Síðan er hægt að kortleggja hversu oft þarf að tæma hvert flokkunarílát fyrir sig. Sums staðar þarf að passa að ílátið taki við öllum úrgangi sem fellur til „á vaktinni“, líkt og ílát undir matar- og eldhúsúrgang á kvöldvakt á veitingastað. Önnur ílát þarf að tæma mjög sjaldan.

Svo flokkun úrgangs á vinnustöðum sé farsæl er mikilvægt að umbúðir utan af matvælum séu vel þrifnar áður en þeim er hent í viðeigandi flokkunarílát. Annars er hætta á að ólykt komi úr þeim flokkunarílátum, starfsfólki til ama.

Hentug staðsetning og stærð

Það hvetur til flokkunar ef ílát fyrir helstu úrgangsflokka eru fallega upp sett í miðrými og/eða þar sem ruslið fellur til, t.d. pappírstunna við prentarann.

Ákjósanlegt er að hafa ekki ruslatunnu við hvert skrifborð heldur ílát fyrir blandaðan úrgang á sama stað og flokkunarílátin.
Algengt er að ílát undir úrgangsflokkana pappa og pappír, plast, matarleifar og blandaðan úrgang séu mest notuð. Þau ílát ættu að vera rúm og aðgengileg.
Aðrir flokkar geta tekið mun minna pláss og jafnvel verið inni í geymslu eða skáp.
Til að spara pláss er hægt að sameina úrgangsflokka sem eru ekki plássfrekir í tví- eða þrískiptar tunnur (t.d. málma og gler).

Samræmdar
merkingar​

Til einföldunar er best að nota samræmdar flokkunarmerkingar fyrir ílátin sem eru öllum aðgengilegar að kostnaðarlausu. Ýmis fyrirtæki selja merkingar á sorpílát sem fylgja þessu samræmda flokkunarkerfi.

Lögbundin skylda er að nota samræmdar merkingar fyrir eftirfarandi flokka: Pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni.

Hér getur þú sótt samræmdar merkingar fyrir lögbundna flokka til prentunar og kynnt þér leiðbeiningar um samræmdar merkingar.

Ef þinn vinnustaður er með annan úrgang sem þarf að flokka getur þú nálgast merkingar fyrir alla úrgangsflokka hér.

Hugmyndir að
snyrtilegum lausnum

Flokkunarkerfi er hægt að hanna þannig að þau falli vel að hönnun vinnustaða, sérstaklega í skrifstofu- og verslunarrýmum. Þau geta jafnvel verið hluti af innréttingum. Falleg framsetning hvetur til flokkunar. Hér eru nokkur dæmi til að veita innblástur.