Tökum þátt

Viðhorf starfsfólks er lykillinn að árangri í umhverfismálum. Fólk flokkar almennt úrgang sinn betur heima en á vinnustaðnum. Hvernig er hægt að breyta því?

Jákvæð umræða

Tölum vel um flokkun á vinnustaðnum, hrósum fyrir það sem vel er gert og fáum yfirmenn og fyrirmyndir til að flokka. Verum jákvæð og hvetjandi frekar en að benda á það sem er ekki nógu vel gert.

Aðgengileg flokkunarmenning

Er tunnan fyrir matarleifar ekki örugglega þar sem fólk skefur af og skilar diskum í kaffistofu eða matsal? Er blandaða tunnan ekki örugglega smærri en flokkunartunnurnar?

Þessir litlu hlutir skipta miklu máli þegar kemur að upplifun starfsfólks. Þeir senda ómeðvituð skilaboð um hvar forgangsröðunin liggur og geta breytt hegðunarmynstri.

Mælanlegur árangur

Setjum okkur markmið og mælum árangur, eða, enn betra, búum til keppni! Með því að mæla árangur á mismunandi starfsstöðvum eða bera fyrirtækið saman við keppinaut getur starfsfólk sameinast um að gera vel.

Hægt er að fá upplýsingar um úrgangsmagn og flokkunarhlutfall vinnustaðarins frá sorphirðuaðila. Stærri fyrirtæki birta upplýsingarnar í sjálfbærniskýrslu. 

Fögnum árangri

Höldum pub quiz! Eða kaupum köku! Gerum eitthvað til að fagna því þegar við náum árangri í flokkun. Hrós á starfsmannafundi getur haft mikið að segja.

Það að flokka er í eðli sínu óeigingjarnt verk og þess vegna skiptir máli fyrir starfsfólk að eftir því sé tekið þegar það leggur sig fram.

Verum opin fyrir nýjum hugmyndum

Hvað er hægt að gera til að ná meiri árangri á vinnustaðnum?

Með því að safna tillögum frá starfsfólki er því gefinn vettvangur til að hafa áhrif og vera hluti af lausnunum. Því meira sem er í húfi, til dæmis að vinna flokkunarkeppni, því betri hugmyndir koma upp úr kassanum.