Spörum pening

Það borgar sig að flokka!

Meira þarf að borga fyrir rusl sem ekki er flokkað rétt. Ef t.d. pappakassa er hent með almennum úrgangi þarf að greiða tvisvar fyrir meðhöndlun hans; einu sinni (fyrir fram) með úrvinnslugjaldi og aftur (eftir á) fyrir að losa sig við blandað sorp í stað flokkaðs, en sorpmeðhöndlunaraðili rukkar minna fyrir flokkaðan úrgang.

Innheimt er eftir kerfi sem kallast Borgað þegar hent er. Kostnaður er mismunandi fyrir hvern flokk og þú borgar minna ef þú hendir minna. Kerfin eru byggð upp í samræmi við mengunarbótaregluna en inntak hennar er að sá borgi sem mengar.
Hvernig getur þitt fyrirtæki sparað með aukinni flokkun?

raunverulegt
dæmi frá íslandi:

Veitingastaður byrjaði að flokka matarleifar, pappír og plast og lækkaði þannig kostnaðinn úr 408.000 kr. í 246.000 kr. á ári.*
Árlegur kostnaður við meðhöndlun:
408.000 kr.
Árlegur kostnaður við meðhöndlun:
246.000 kr.
Sparnaður:
162.000 kR.
*Kostnaður við meðhöndlun úrgangs er mismunandi eftir sveitarfélögum.

Úrgangur sem auðlind

Gott dæmi um úrgang sem fellur til, oft í miklu magni, hjá mörgum rekstraraðilum eru raftæki og rafhlöður og þau bera úrvinnslugjald. Mikilvægt er að flokka þennan úrgang vel, bæði vegna þess að í honum eru verðmæti sem sum hver eru af skornum skammti og vegna skaðlegra efna sem geta verið til staðar og valdið mengun eða jafnvel bruna ef þau eru ekki meðhöndluð rétt.

Raf- og rafeindatæki

Þetta eru m.a. tölvubúnaður, skjáir, snjalltæki, fjarstýringar, farsímar, brauðristar og ísskápar, ásamt snúrum og tenglum. Líkt og Úrvinnslusjóður útskýrir, þá er allt sem „gengur fyrir rafmagni, tengist með snúru og/eða virkar með rafhlöðum“ raf- og rafeindatæki og ber að flokka sem slík þegar þau úreldast eða eyðileggjast.

Rafhlöður og rafgeymar

Þetta eru allt frá örsmáum hnapparafhlöðum í heyrnartækjum og fjarstýringum, batteríum í barnaleikföngum, rafrettum, reykskynjurum og verkfærum, yfir í stærri rafhlöður í rafhjólum og bílum. Úrvinnslusjóður fjallar ítarlega um mismunandi gerðir rafhlaða og hvar eigi að skila þeim þegar þær verða að úrgangi.