Rekstrarúrgangur er úrgangur frá framleiðslu, landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum, rotþróm, seyra og ristarúrgangur frá fráveitukerfum.
Fyrir utan ruslið sem verður til á nær öllum vinnustöðum (í einhverju magni) og á öllum heimilum (þ.e. heimilisúrgangur) verður líka til rekstrarúgangur hjá mörgum fyrirtækjum.
Meginreglan er sú að rekstraraðilum er skylt að flokka rekstrarúrgang sinn svo hann sé endurnýttur í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs að eins miklu leyti og unnt er. Í því skyni skal stuðla að undirbúningi fyrir endurnotkun og endurvinnslu.
Stærstur hluti úrgangsflokka í samevrópska flokkunarkerfinu, eða 59 af 72, eru fyrir rekstrarúrgang, aðallega iðnaðarúrgang og úrgang úr byggingargeiranum.
Rekstrarúrgangur getur verið t.d. hjólbarðar, flutningsbretti, rúðugler, smurolíur og gaskútar en einnig fiskislor, sláturleifar, trjábolir, járnabindingar, bílhræ og efnaúrgangur.
Rekstrarúrgangur verður oft til í fyrirsjáanlegum og hreinum eða einsleitum straumum, eins og úrgangur sem kemur af færibandi í verksmiðju. Slíkan úrgang má oft endurnota, endurvinna eða nýta sem hráefni í nýja vöru og því væri sóun að farga honum. Gott dæmi er fiskúrgangur sem að jafnaði er mjög vel nýttur á Íslandi.
Að jafnaði standa íslensk fyrirtæki sig vel í að fullnýta auðlindir sinnar framleiðslu, m.a. með góðri úrgangsstjórnun og nýtingu á rekstrarúrgangi.
Hins vegar verður líka til úrgangur í hvers kyns rekstri sem er meira krefjandi í meðhöndlun. Ekki er alltaf hægt að sjá fyrir hvar og hvenær úrgangurinn verður til og/eða hann er óhreinn eða samsettur úr mögum efnum sem þarf að aðgreina svo hægt sé að endurvinna. Þetta eru t.d. heyrúlluplast úr landbúnaði, veiðarfæri úr sjávarútvegi og byggingar- og niðurrifsúrgangur.
Flest tímasett töluleg markmið eru út frá heimilisúrgangi þar sem hann er mjög tengdur neyslu fólks almennt. Einnig eru til markmið um að draga úr og bæta farvegi ákveðinna gerða rekstrarúrgangs og oftar en ekki eru það þessir áðurnefndu krefjandi flokkar.
Til eru leiðbeiningar um meðhöndlun slíks úrgangs.
Oftast er flokkun rekstrarúrgangs hjá fyrirtækjum á Íslandi góð og flestum ljóst hvernig skuli flokka eða meðhöndla þann úrgang. Ef spurningar vakna er um að gera að leita upplýsinga hjá sorphirðuaðila eða hjá Umhverfis- og orkustofnun til að fá svör við því hver sé rétt flokkun, skráning og besta meðhöndlunarleið fyrir þann rekstrarúrgang sem um ræðir.